Hallgerður Gisladottir
Smákökur?
þá spyrja dægrin: hversvegna ertu hér,
hafrekið sprek á annarlegri strönd?
Eldri færslur
Krækjur
Annað
Tala látinna:

online colleges
miðvikudagur, júní 07, 2006
kVE[JA FR'A ;iTAL'IU

lJ'O[AGETRAUN:

hVER B;YR ''I Romarstraeti 10
Hallgerdur | (2) comments
þriðjudagur, maí 16, 2006
Hann Siggi á farmalnum syngur
um svása mær háfleygan brag
og Geir sem er roskinn og reyndur
hann rakar sig tvisvar á dag
Til hamingju Dögg þetta var sannarlega Kaupakonan hans Gísla í Gröf sem hafði svona
áhrif á strákana í sveitinni. Þú færð hjá mér bjórglas á Unganum við tækifæri.
Í gær ók ég í ruddalegasta torfærutrölli Íslenskra orkurannsókna um Selvoginn, slóða
sem lágu um ófærur og hraun. Eiginmaður minn gekk fyrst fjörur til að leita að
hraunamótum, sem hann fann ekki á meðan að ég skók tröllið eftir hrauninu og lá
stundum við að það styngist á endum. Guð hvað þetta var gaman, kannske á fyrir mér
að liggja að verða jeppakerling þegar fram líða stundir. Ég fékk líka að aka - á
meðan að Árni elti gömul strandmörk og hraunjaðar eltum við Trölli hann. Auðvitað
fann Árni ummerki sem breyta klassískri jarðfræðiskoðun (minnka Leitarhraun þó
nokkuð, hann rakst sumsé á jaðar þess þar sem hann lá yfir Selvogshrauninu nokkuð
frá sjó, menn héldu áður að það næði út að sjó). Árni gerir svona uppgötvanir í
hverri ferð enda er hann óendanlega duglegur að þvælast fram og afur um holt og
hæðir til að reyna að sjá nýjar hliðar á landinu. Svo fórum við á Hafið bláa og
ætluðum að fá okkur kaffi, þar var boðið upp á hlaðborð og ég uppgötvaði að mig
blóðlangaði í hnallþórur og lét eftir mér að hesthúsa rækjubrauðtertu og rjómatertu.
Semsagt, lystin sem yfirgaf mig fyrir alllöngu er að koma aftur. Þetta var nú
eiginlega hápunktur dagsins. Lífið er aumt án matarlystar og vont er að vera í
megrun, enn verra þó í fitun - og þurfa stöðugt að troða í sig mat sem manni
hálfbýður við. Ég orti ljóð um þetta gagnmerka efni um daginn:

Forsíðufrétt

Tuttuguogsjö kíló horfin
á fjórum mánuðum
sjáið myndirnar
fyrir og eftir!

"bara að ég gæti fengið
væga matareitrun"
andvarpaði mín bústna vinkona

"Það getur enn reynst vel
að eiga sér forða
til hörðu áranna"
sagði læknirinn minn
þegar ég hafði lést
um 20 kíló
á nokkrum vikum

Engin ljóðagetraun í dag.
Hallgerdur | (1) comments
laugardagur, maí 13, 2006
Jæja. Ingunn réði ljóðagetraunina, þetta var reyndar Bjössi á Ingólfi Arnar sem blístraði hvellt og hló. En með fylgdi að hún kynni ekki kvæðið og að brögð væru í tafli. Þetta gengur náttúrulega ekki og Ingunn fær engan kaffibolla fyrir að leita að "blístraði hvellt og hló" á Google. og finna þannig út svarið (hún játaði þetta misferli í eigin persónu í dag, án þess að skammast sín hið minnsta). Þetta þýðir að ég þarf að tékka á leitarvélunum áður en spurningin er látin vaða. Og hér kemur hún:
Hver syngur háfleygan brag um svása meyju?
PS Dagurinn var önaðslegur hjá mér, vona að þið hafið líka notið hans í botn
Hallgerdur | (2) comments
föstudagur, maí 12, 2006
Sigurborg Hilmarsdóttir réði ljóðagetraunina, allt hárrétt hjá henni, ljóðið var eftir Hannes P, án titils (nr. 16 úr bókinni 36 ljóð sem kom út árið 1983 og var tileinkuð Kristjáni Eldjárn). Takk fyrir þetta Sigurborg, ég skal bjóða þér uppá kaffibolla næst þegar við sjáumst. Annars er ég á leiðinni á opnun Landnámsskálans á eftir, ég er ein af mjög útvöldum boðsgestum þar að mér skilst. En þessa heiðurs verð ég aðnjótandi vegna þess að á einum margmiðlunarskjánum sést hvar kona mjólkar kind. Þessa konu leik ég, en það er ekki gott að átta sig á því, þetta eru hálfgerðar skuggamyndir. Semsagt ef þið farið á Landnámssýninguna og sjáið þar á skjá konu mjólka kind, þá er það ég. Miklar þjáningar tók þessi vesalings kind út í stúdíóinu. Í gegn um margar kynslóðir hefur sú vitneskja sest að í hennar kyni að sé maður tekinn úr hópnum og leiddur inn í ókunnugt hús, sé það sláturhús. Kindin skeit og meig viðstöðulítið, jarmaði hátt og spyrnti við klaufum. Þegar allt var yfirstaðið hímdi hún upp við vegg og hristist eins og loftpressa. Samt reyndum við allt sem við gátum til að koma henni í skilning um að það ætti einmitt ekki að drepa hana.
Ljóðagetraunin:
Hver blístraði hvellt og hló?
Vísbending: Fyrstu setninguna í kvæðinu má tengja Landnámsskálanum
Ég hef ekki hugmynd um hver höfundurinn er, kannske getur einhver hjálpað mér með það.
Hallgerdur | (1) comments
miðvikudagur, maí 10, 2006
Jæja ég hringdi í lækninn minn í gær og sagði honum að það gengi ekki að vera með flensu í hátt á þriðja mánuð. Hann YRÐI bara að gera eitthvað. Læknirinn varð að samþykkja þetta, hingað til hefur hann ætlast til að nýja ónæmiskerfið mitt gerði út um málið. En það er ekki búið að átta sig á því hvað ónæmiskerfi gera þegar fólk fær flensu. Er sumsé komin á sterk fúkkalyf og strax farin að horfa bjartari augum á veröldina. Annars er það helst í fréttum að ég var á jarðarförum bæði í gær og fyrradag að fylgja fólki sem mikil eftirsjá er að. Það er ekki gaman. Athafnirnar voru gerólíkar en báðar mjög glæsilegar. Sú fyrri (Frans Gíslason) var prestlaus (Árni Hjartarson lék prest) en Brecht/Weil söngur og fleira þýskættað af músik, ljóð og minningarorð. Í hinni var enginnn kór en Þórarinn mágur og Kristjana svilkona komu í kórs stað, fluttu Hrísluna og lækinn eftir Pál Ólafsson og Inga T., Ætti ég Hörpu eftir Pétur Sig., Yfir í Fjörður eftir Böðvar og Kvölda tekur. Svo voru þau forsöngvarar í Um dauðans óvissan tíma og Dal einn vænan ég veit, en full Hallgrímskirkja tók undir. Þetta var sungið yfir okkar góðu vinkonu Vallý Jóhannsdóttur sem fór alltof alltof snemma. Allt kom fallega út og var hjartnæmt Síðan ætla ég að fylgja Stefáni Karlssyni handritafræðingi á föstudaginn. Semsagt þrjár jarðarfarir á einni viku. Það er ALGJÖRT met í lífi mínu.
Hér sýnist mér vera tilefni til ljóðagetraunar:
Hverjir eru himnarnir honum yfir?
Hallgerdur | (1) comments
föstudagur, maí 05, 2006
Góðan daginn. Dögg áttaði sig á því af sinni alkunnu skerpu að það hlaut að vera baugalína sem hvarf bjartleit burt úr rann. Svo kom Þuríður og bætti um betur og upplýsti að kvæðið er Meyjarmissir eftir Stefán Ólafsson. Til hamingju gáfuðu og glöggu konur!!!!
Ég fór semsagt á vit Baugalína í gærkvöldi en var aðeins lystarlítil og slöpp, það er ekki það sem maður vill vera á Baugalínafundi þar sem allt flýtur í eðalvínum og gæðaréttum. Það var samt gaman og dásamlegt að sjá hvernig hún Helga Pálína (ásamt Gauta auðvitað) er búin að gera híbýli sín - hús listamannsins, augnkonfekt hvert sem litið er. Ég hangi í vinnunni - stefni að því að ná þremur tímum í dag. ER að skrifa um mataræði Íslendinga á 19. öld og gæti sagt ykkur heilmikið um það en ætla að hlífa ykkur við því. Það er ekki heldur neitt sérstakt tilefni til að vera með ljóðagetraun á þessum föstudegi. Eða hvað, muna menn eftir ljóði um föstudag?
Látum við svo búið standa
Hallgerdur | (0) comments
fimmtudagur, maí 04, 2006
4. maí. Saumaklúbbsdagur, það verður semsé saumaklúbbur í kvöld hjá Helgu Pálínu. Gott fyrir mig, ég er í fitun að læknisráði. Stúlkurnar mínar 13 í Baldýringafélaginu Baugalín eru þvílíkar sælkerlur að það hálfa væri nú nóg. Ég verð að segj að ég hlakka heilmikið til - þrátt fyrir pestir og almenna deyfð og drunga. Var uppi á spítala í morgun, er í vinnunni núna, dragnast þetta svona ojæja ojæja.
Þuríður gat síðustu ljóðagetraun og á heiður skilið fyrir það - hún var nefnilega ekki létt sú.
Hér er ein í tilefni dagsins:
Hver hvarf bjartleit burt úr rann?
Kvæðisheiti og höf. ásamt svari við spurningu takk
Hallgerdur | (2) comments