Jæja. Þá er maður nú aftur kominn í heimasíðunámskeiðið hjá Salvöru. Fyrsta verkefnið er að blogga - sem ég geri hér og nú.
Dagurinn hefur verið mér nokkuð góður að öðru leyti en því að tölvan mín í vinnunni tók upp á því að hafna lyklaborðinu - eins konar sjálfsofnæmi -
Fyrst hafnaði hún einu lyklaborði og af því að Jói tölvumaður var ekki við þurfti ég að bíða þó nokkuð áður en að ég gat fengið sjúkdómsgreininguna. Ónýtt lyklaborð sagði Jói og lét mig fá annað. Framan af gekk allt vel en svo sótti í sama horfið - það var semsé alveg sama hvað ég sló á lyklaborðið, tölvan lét eins og ekkert væri. Þetta var lagað aftur og var í lagi þegar ég fór en kannske verður það í ólagi á morgun.
Hallgerdur |
(0) comments
Jæja þá er nýji þriðjudagskrimminn - Löggurnar í Liverpool - byrjaður. Ég verð nú að segja það að mikið sakna ég hans Tanners með allar ofsjónirnar sínar og fýluköstin. Það var engin gáta í þessum fyrsta þætti, bara endalaust klandur sem löggurnar - einkum og sér í lagi okkar maður Scully - voru að koma sér í. Gerðu húsleit í næsta húsi við það sem húsleitarheimildin var um, létu fanga komast upp með að drepa sig í þeirra vörslu og svo fram vegis. Allt fór á versta veg alls staðar þar sem einhverjum málum var hreyft - mest þó fyrir aumingja Scully sem vélaði bróður sinn til að vera uppljóstrara í dópmáli, svo var bróðirinn auðvitað skotinn og liggur nú verri en dauður á spítala, útlimalaus meðal annars. Heila fjölskyldan óð af reiði út í Scully. Bót er í máli að nýja sæta löggustelpan er farin að sýna honum augljósan áhuga. Við sjáum hverju fram vindur næsta þriðjudag. En ég er með hálfgerða flensu og ekki til stórræðanna þessa dagana.
Hallgerdur |
(0) comments
Þá er það bloggið.
Helgin er liðin og fyrsti vinnudagur nýrrar viku að renna sitt skeið.
Ég gekk á þrjú fjöll á laugardaginn, þ.e. úr Þrengslum niður að Hlíðarenda í Ölfusi um hátinda fjallanna Sandfells, Geitafells og Búrfells - fimm og hálfrar klukkustundar ganga. Reyndar má nú segja að Geitafell sé það eina af fjöllum þessum sem ber nafn með rentu. Þetta var hreint út sagt unaðslegt þó að hann sletti alltaf úr sér öðru hvoru og maður sykki upp að ökklum í aurdíki við og við. Á sunnudeginum var ég "servitrísa" í fermingu dóttur vinafólks míns. Þetta eru nú helstu afrekin eftir helgina en að auki hlóð ég prufueintaki af dreamweaver 4 niður í tölvuna hjá mér og tók það feiknalangan tíma.
Hallgerdur |
(0) comments