Ég lenti óvart inni á bloggi hjá einhverjum sem fyrirleit greinilega konur um fimmtugt af stakri innlifun - þær púa mjóar sígarettur í saumaklúbbum , dreypa á líkjörum og segja kjaftasögur - þetta getur allt passað hugsaði ég beygð, svona er maður nú hallærislegur. Næst fór hann að hamast á bloggurum - það væri fólkið sem lifði á foreldrum sínum fram á miðjan aldur og kenndi þeim svo skilvíslega um allan mótgang í lífinu....
Ég varð 52 ára í gær og þá tók sig upp gamall bloggáhugi. Ekki síst vegna þess að sonur minn - ofurkrúttið Guðlaugur (gundurinn.blogspot.com) - gaf mér blogg í afmælisgjöf. Svo fékk ég líka Silfurplötur Kvæðamannafélgsins Iðunnar í viðhafnarútgáfu. TVÖHUNDRUÐ gömul kvæðalög á diskum kveðin af fagfólki fyrri alda (þeirrar 19. og 20.). Gríðarleg bók fylgir með öllum lagboðavísum og nótum. Í tilefni af þessu hef ég ákveðið að ég og fjölskylda mín (ekki síst téður Guðlaugur sem er laumukvæðamaður) lærum framvegis eina stemmu á dag - stemmu dagsins - og kveðum hana saman við raust. Að 200 dögum liðnum getum við bara byrjað aftur því að þá er sú fyrsta vísast gleymd. Það stefnir semsagt í fjör hér í Sörlaskjóli 6 ....
Látum við svo búið standa.
Hallgerdur |
(0) comments