Hallgerður Gisladottir
Smákökur?
þá spyrja dægrin: hversvegna ertu hér,
hafrekið sprek á annarlegri strönd?
Eldri færslur
Krækjur
Annað
Tala látinna:

online colleges
miðvikudagur, apríl 06, 2005
Af því að ég var í svartnættinu í gær ætla ég að leiða hugan að bjartari hliðum mannlífsins í dag, þó að það sé nú ekki auðvelt.
Semsagt – um helgina var Vilborg Dagbjartsdóttir með ritþing. Og þvílíkt sem ég var montin af henni frænku minni. Henni tókst að halda stútfullum sal í stemningu í tvo og hálfan tíma með sögum og ljóðum. Ljóðin hennar eru ekkert smá yndi. Hún er BEST – enginn í okkar fjölskyldu nálgast með tærnar þar sem hún hefur hælana – nema ef vera kynni megarasskatið Guðlaugur sonur minn (lesið bloggið hans). Á eftir fórum við hjónin út að borða með Vilborgu á Horninu og héldum áfram að njóta.
Svo var ég í saumaklúbb – það er alltaf mikið fjör í saumaklúbbnum mínum – Baldýringafélaginu Baugalín. Þar er sko ekki slefburður um náungann á dagskrá, framhjáhöld og fyllirí. Ónei – öll þau mál sem skipta sköpum í samfélaginu eru krufin til mergjar og hárréttar lausnir fundnar, ákveðið hverjir verða formenn í flokkum, fréttastjórar á endanum, þjóðminjaverðir, ráðuneytisstjórar og svo framvegis. Hvenær skyldi fólk átta sig á því hvar fimmta valdið – og það sterkasta – felur sig????
Og svo er ég að fara til Kaupmannahafnar í fyrramálið með samstarfsfólki mínu, samkvæmisljónunum á Þjóðminjasafninu og verð fram yfir helgi. Þá verður nú drallað í Hólmakirkju ...
Hallgerdur | (0) comments
þriðjudagur, apríl 05, 2005
Ég var að koma frá úför þar sem viðstaddir fengu að taka þátt í að jarða hinn látna á táknrænan hátt með því að ausa sandi á kistuna sem stillt var upp utan við Dómkirkjuna. Þetta er innlifunarauki sem leiðir enn betur hugann að þeim ósi sem allar ár stefna að – niður í móti.

Meira um hinar dekkri hliðar. Ég var um daginn á samkomu í kvenfélaginu FÁF (tengist leikfélaginu Hugleikur ), skammstöfunin útleggst Fullar á fundum. Temað var þunglyndi og öllum uppálagt að flytja eitthvað um svartnætti og sálarkvöl. Það var líka ótæpilega gert við gleðilæti og hlátrarsköll FÁF kvenna. Við Imba Hjartar fórum með sonnettu í talkór sem endar á þennan veg:
...
með dauðaharmi drekk ég frá mér vitið
ég leggst svo einn í óumbúið rúmið
og í því finn ég loksins vott af hlýju
því hérna hefur hundurinn minn skitið

Svo kváðum við mágkonurnar grátandi í faðmlögum svartnættiskveðskap við melankólískustu rímnastemmurnar sem við gátum mögulega fundið. Til dæmis þessa vísu eftir Kristján fjallaskáld sem er “the grand old man” í kvalræðisónaníunni:

Myrkur hylur mararál
myrk sig skýin hringa
myrkur er í minni sál
myrkra hugrenninga

Eftir á að hyggja hefðum við líka átt að fara með Ólag eftir Grím Thomsen – sem endar svo ansi vel:
...
eigi er ein báran stök
ein er síðust og mest
búka flytur og flök
búka flytur og flök


Póstmódernísk kvöl

Sálarkvöl
gerist
sífellt
flóknari

Einatt
hefur hún verið
kvalræði
-það má sjá
í gömlum sögum

eftir því sem skepnunni fleygir fram
teygir hún angana víðar

snúið að finna út
hvaða skott skal elta

og að lokum þetta brot úr texta eftir Hjördísi Hjartar (lag Árni Hjartar):

Lífið mig leikur grátt
og lítið sem bíður mín
Hallgerdur | (0) comments