Hallgerður Gisladottir
Smákökur?
þá spyrja dægrin: hversvegna ertu hér,
hafrekið sprek á annarlegri strönd?
Eldri færslur
Krækjur
Annað
Tala látinna:

online colleges
fimmtudagur, apríl 14, 2005

Fimmtudagur. Ég á að vera að skrifa fræðilega grein um erfisdrykkjur. Það gengur hægt. Þó veit ég orðið eitt og annað um efnið. Til dæmis að fram um 1900 var algengt að erfisdrykkjur væru mestu sukksamkvæmi þar sem menn drukku sig fulla, kváðu rímur, glímdu og döðruðu Víða á 19. öld voru það einungis brúðkaup, útfarir og svo kannske nágrannaboð um jólin sem menn höfðu til að gera svoleiðis - semsagt eins og vér gerum nú á næsta bar, komi slíkur andi yfir oss. En erfidrykkjur í dag. Eru þetta ekki ábyggilega hefðbundnustu kökusamkvæmi sem völ er á? Alltaf ákveðinn kjarni af randalínum, pönnukökum, flatbrauði með hangikjöti, smurbrauðstertum og hnallþórum - sama hvort það er Hótel Borg eða kvenfélagið í Kolbeinsey sem heldur veisluna. Í staðinn fyrir að vera vettvangur fyrir drykkju og daður eru erfisdrykkjurnar núna ættarmót, samkomur fjarskyldra meðlima stórfjölskyldunnar. Þeir verða alltaf voða glaðir og skrafhreifnir þegar þeir hittast einu sinni á ári við jarðarfarir, hlaða í sig kræsingum og taka út stöðuna hver hjá öðrum. Hinn brottkallaði er lukkulega gleymdur og grafinn - enda sermóníurnar ekki ætlaðar fyrir hann á póstmódernum tímum. Nánustu ættingjar eru svo kysstir í bláendann og minntir á að "vera duglegir"

Látum við svo búið standa í dag

Hallgerður - ævinlega á léttu nótunum

Hallgerdur | (0) comments
miðvikudagur, apríl 13, 2005
Jæja - "miðvikudagur og lífið gengur sinn gang". Í gær horfði ég á byrjun á nýjum þriðjudagskrimma með krimmagenginu - það var svona hálfgerð paródía á krimma því að aðilar sakamálsins voru greinilega búnir að horfa á mjög, mjög marga krimma og margfóru yfir og gengu frá öllum hugsanlega lausum endum. Spái samt að það komi í ljós að þau hafi klikkað á grundvallaratriði - a.m.k. sá ég nokkuð sem gæti reynst þeim skeinuhætt þegar hinir örkviku spæjarar koma á vettvang. Í morgun fór ég eldsnemma og óétin - það sem verra var óhlaðin með koffíni á fund með Frikka Soff. uppi í Landsvirrkjun í stjórn Þjóðveldisbæjar. Bjóst þar við hlaðborði af góðgæti - en nei, þar er sko ekki bruðlað fremur en á minni ríkisstassjón. Komst við illan leik á skrifstofuna suður í Garðabæ og ruddi í mig rúgbrauði, rúllupylsu og sterku kaffi þar til að ég fann að orkan streymdi aftur um æðarnar. Sá að Guðlaugur sonur minn er búinn að stofna til fjöldaumræðna um kúk á blogginu sínu, það fer honum vel en fólk á mínum aldri verður að finna upp á einhverju af öðru tagi til að afla sér vinsælda.
Látum við svo búið standa á þessum miðvikudegi.
Hallgerdur | (0) comments
mánudagur, apríl 11, 2005
Heimkomin frá uppáhaldsborginni minni Kaupmannahöfn! Langar aldrei að fara þaðan. Flaug heim síðdegis í gær með einni af alstærstu flugleiðavélunum, það var svo mikill vindsperringur í þeim í efra að flugfreyjan tilkynnti hvað eftir annað með örlagaþrunginni rödd að harðbannað væri að hreyfa sig úr sætum. Ég sat alveg aftast og vélin dillaði stélinu eins og flaðrandi íslenskur hundur. Mikið svaf ég vel í þessari vél og mín vegna hefði stélið mátt fjúka veg allrar veraldar -fyrst við vorum á leið frá Höfn en ekki til hennar. Held að ég hafi verið greifynja eða einhver vellíðunarleg dándikvinna í Köben í fyrra lífi. Nei annars líklega hef ég verið karlkyns - konur voru svona frekar kúgaðar á þessum tíma. Var ég kannske Jón Sigurðsson???
En semsagt - ég er komin heim og gamlar syndir stinga upp kollinum á öllum sviðum, andlegum sem líkamlegum, efst sem neðst, yst sem innst - uppi og niðri og þar í miðju... Maður flýtur oní gömlu þráhyggjurnar sínar - einsog ekkert hafi skeð
Látum við svo búið standa
Hallgerdur | (0) comments