Ég fór að sjá Grjótharðir í Þjóðleikhúsi í gærkvöldi, þeir voru annars vegar ansi harðir í horn að taka og hins vegar illa kvaldir, við Unnur Gutt erum að hugsa um að skrifa leikritið Grjótharðar til að koma kvenlega sjónarmiðinu að - það gæti hugsast að hinar grjóthörðu brystu í kvæðasöng af og til um glæpi formæðra sinna. Í morgun sátum við í vinnustaðakaffi og ræddum leikhúsin og kvikmyndahátíð eins og menningarlegu fólki ber að gera. Allir voru á kafi í einhverju sjónmeti í gær - gömlum hasarmyndum á videó eða því heitasta á kvikmyndahátíð - rætt var um kvikmynda- og leikhúsgagrnrýni í fjölmiðlum. Það hvarflaði allt í einu að mér að á þessum mjög svo spennandi "nú"tímum hefðu ungir menningarvitar ekki eins brýna þörf fyrir að skammast út í smekk þeirra sem ekki hafa séð sama ljós og þeir. Guð láti á gott vita og kannske miðar okkur áfram þrátt fyrir allt. Svei annars þetta var ljóta bjartsýniskastið.
Gleðilegt sumar
Hallgerdur |
(0) comments
Mánudagur til mæðu og það rignir djöfulinn ráðalausan. Ég segi ekki að rigning og rok geri mig þunglynda, frekar að ég sé hátt uppi þegar sólin skín en eitt er víst að veður hefur óæskilega mikil áhrif á systemin. Ég trúi gamla fólkinu fullkomlega þegar það talar um að gigtin í þeirra slitnu búkum taki mið af lægðum og hæðum. Reyndi í þriðja skipti að komast á niðurganginn í Regnboganum áðan, þ.e. myndina um síðustu daga Hitlers og í þriðja skipti var uppselt - þó að ég væri komin meira en hálftíma áður en myndin byrjaði. Annars sá ég Móðurina í Háskólabíói með Guðlaugi syni mínum á laugardaginn, alveg ágætis mynd sem fjallar um konu nálægt sjötugu sem missir manninn sinn og fer upp úr því að halda við kærasta dóttur sinnar - og fleiri. Gjörvallt persónugalleríið var í viðstöðulausri krísu myndina út í gegn og ekki séð fyrir endann á þeim ósköpum í lokin. Svo voru tvær feitar fermingarveislur í gær, þeir Haraldur Þrastarson og Halldór Eldjárn fermdust borgaralega í Háskólabíó, við í stórfjölskyldunni fermdum þá gjöfum og góðum orðum og fermdumst sjálf margvíslegum kræsingum sem segja til sín á ýmsan hátt í dag. Þar að auki fermdu eiginmaður minn og sonur Harald frænda sinn heilræðavísum, ýmist kveðnum eða sungum allt frá Hallgrími Péturssyni til Megasar okkar allra.
Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.
Látum þetta vera lokaorðin í dag.
Hallgerdur |
(0) comments