Laugardagskvöld og ég er búin að horfa á Gísla Martein, spaugstofuna og meira en klukkutíma þátt um júróvisjón. Þessar þrásetur yfir sjónvarpinu stafa af magalurðu sem hefur plagað mig undanfarið og er einmitt núna að syngja sitt síðasta - síga út á milli rifjanna. Ég elska reyndar júróvisjón og fannst þessi þáttur sérstaklega skemmtilegur, hann var semsagt norrænn og spekingar frá Norðurlöndunum spjölluðu um fimm júrólög 2005 og gáfu þeim stig. Þar á meðal voru þrjú frá Norðurlöndunum og þau vermdu merkilegt nokk þrjú efstu sætin eftir stigagjöfina. Selma var efst. Norsarinn sem Finnar gera út í ár eftir 38 árangurslausar tilraunir til að vinna keppnina (téður Norsari er búinn að gera næstum jafnmargar tilraunir til að komast í keppnina bæði í Noregi og Finnlandi) sagði fullum fetum að þeir myndu semja við Norðmenn um að fá þar fullt hús af stigum. Öllum finnst Selma æðisleg, sem hún er nú líklega blessunin. Ég varð lúmskt skotin í Belganum með suðræna útlitið sem beljaði rómantískt ástarljóð með öllum þeim tilþrifum sem karlmenn af þessu tagi geta gripið til. Spekingarnir höfðu ekki sömu tilfinnigar til hans. Svo voru unaðsleg klipp af halló Norðurlandalögum frá fyrri árum júró. Ætla svo sannarlega að gera mér glaðan dag þegar Kænugarður 2005 brestur á.
Hallgerdur |
(0) comments