Hann Siggi á farmalnum syngur
um svása mær háfleygan brag
og Geir sem er roskinn og reyndur
hann rakar sig tvisvar á dag
Til hamingju Dögg þetta var sannarlega Kaupakonan hans Gísla í Gröf sem hafði svona
áhrif á strákana í sveitinni. Þú færð hjá mér bjórglas á Unganum við tækifæri.
Í gær ók ég í ruddalegasta torfærutrölli Íslenskra orkurannsókna um Selvoginn, slóða
sem lágu um ófærur og hraun. Eiginmaður minn gekk fyrst fjörur til að leita að
hraunamótum, sem hann fann ekki á meðan að ég skók tröllið eftir hrauninu og lá
stundum við að það styngist á endum. Guð hvað þetta var gaman, kannske á fyrir mér
að liggja að verða jeppakerling þegar fram líða stundir. Ég fékk líka að aka - á
meðan að Árni elti gömul strandmörk og hraunjaðar eltum við Trölli hann. Auðvitað
fann Árni ummerki sem breyta klassískri jarðfræðiskoðun (minnka Leitarhraun þó
nokkuð, hann rakst sumsé á jaðar þess þar sem hann lá yfir Selvogshrauninu nokkuð
frá sjó, menn héldu áður að það næði út að sjó). Árni gerir svona uppgötvanir í
hverri ferð enda er hann óendanlega duglegur að þvælast fram og afur um holt og
hæðir til að reyna að sjá nýjar hliðar á landinu. Svo fórum við á Hafið bláa og
ætluðum að fá okkur kaffi, þar var boðið upp á hlaðborð og ég uppgötvaði að mig
blóðlangaði í hnallþórur og lét eftir mér að hesthúsa rækjubrauðtertu og rjómatertu.
Semsagt, lystin sem yfirgaf mig fyrir alllöngu er að koma aftur. Þetta var nú
eiginlega hápunktur dagsins. Lífið er aumt án matarlystar og vont er að vera í
megrun, enn verra þó í fitun - og þurfa stöðugt að troða í sig mat sem manni
hálfbýður við. Ég orti ljóð um þetta gagnmerka efni um daginn:
Forsíðufrétt
Tuttuguogsjö kíló horfin
á fjórum mánuðum
sjáið myndirnar
fyrir og eftir!
"bara að ég gæti fengið
væga matareitrun"
andvarpaði mín bústna vinkona
"Það getur enn reynst vel
að eiga sér forða
til hörðu áranna"
sagði læknirinn minn
þegar ég hafði lést
um 20 kíló
á nokkrum vikum
Engin ljóðagetraun í dag.
Hallgerdur |