Hallgerður Gisladottir
Smákökur?
þá spyrja dægrin: hversvegna ertu hér,
hafrekið sprek á annarlegri strönd?
Eldri færslur
Krækjur
Annað
Tala látinna:

online colleges
miðvikudagur, mars 15, 2006
Miðvikudagur. Var þrjá og hálfan tíma í vinnunni að vinna í heimasíðu þjóðháttasafns og sækist vinnan bara vel miðað við andlegt og líkamlegt ástand. Síðdegis fór ég í sjötugsafmæli Ingu Huldar á Borginni þar var afskaplega mikið af rjómatertum, brauðtertum og skemmtilegu fólki. Guðrún Ásmundsdóttir var veislustjóri og ýmsir andans menn létu móðann mása afmælisbarninu til heiðurs, til dæmis talaði Flosi lengi lengi. Hann kvaðst nú loksins vera orðin "kerlíng" að því er mér skildist fyrst og fremst til að geta haft meira og nánara samneyti við hið elskaða afmælisbarn, sem alltaf hefur verið á kafi í kvennafræðum. Inga Huld var að venju eins og drottning. Við fórum á Bókhlöðustíginn með Vilborgu eftir afmælið. Hún sagði okkur frá kenningum sem hún hefur ekki enn haft tíma til að sanna en byggjast á ýmsu sem hún hefur heyrt og séð útundan sér. Til dæmis að fyllibyttur og aðrir fíklar séu svoleiðis vegna þess að þá dreymi ekki í lit - til að bæta sér upp þetta ófullnægjandi draumlífi þurfi menn aðra vímu. Þá telur hún að fólki með ættarnöfn fækki frekar en hitt vegna þess að það hafi tilhneigingu til að giftast hvert öðru og þá geti börnin ómögulega ákveðið hvort ættarnafnið þau eigi að bera og slaufi því báðum. Þetta sannast á fjölskyldu tengdaforeldra minna, Sigríður Hafstað og Hjörtur Eldjárn eiga sjö börn og ekkert þeirra notar ættarnöfnin - nema svona sem millistaf stundum. Látum við svo búið standa í bili.
Hallgerdur | (1) comments
sunnudagur, mars 12, 2006
Hér var setið til borðs milli tólf og fjögur í dag, ekkert óvenjulegt um helgar, síðbúinn morgunverður og hinir og þessir tíndust að til að skeggræða spekingslega um stöðu heimsmála. Til stendur að gefa út disk með lögum Árna Hjartar og var það mikið rætt og sungið því að þarna voru Íris og Hjörleifur sem ætla að syngja á diskinum ásamt Kristjáni og Kristjönu, semsé endurreistur Tjarnarkvartett. Lögin á tilvonandi diski voru sungin með miklum tilþrifum af borðnautunum (af yngri kynslóðinni voru mættir Guðlaugur sonur minn, Þorri og Þrándur). Nágrannarnir hljóta að hafa haldið að hér væri í gangi eitt allsherjarfullerí en svo var nú ekki, hins vegar var drukkið mikið af köldu kranavatni því að ýmsir þar á meðal við höfðu vakað frameftir í gærkvöldi. Þá - í gærkvöldi - sigraði ég Árna, Þórólf og Ingunni eftirminnilega í skrafli með því umdeilda orði "togspóla" í þrígildi, semsagt 74 spírur. Ingunni varð svo mikið um þetta að hún lagðist fyrir í tölvuherberginu og svaf þar til morguns.
Látum við svo búið standa
Hallgerdur | (1) comments