Hallgerður Gisladottir
Smákökur?
þá spyrja dægrin: hversvegna ertu hér,
hafrekið sprek á annarlegri strönd?
Eldri færslur
Krækjur
Annað
Tala látinna:

online colleges
laugardagur, maí 13, 2006
Jæja. Ingunn réði ljóðagetraunina, þetta var reyndar Bjössi á Ingólfi Arnar sem blístraði hvellt og hló. En með fylgdi að hún kynni ekki kvæðið og að brögð væru í tafli. Þetta gengur náttúrulega ekki og Ingunn fær engan kaffibolla fyrir að leita að "blístraði hvellt og hló" á Google. og finna þannig út svarið (hún játaði þetta misferli í eigin persónu í dag, án þess að skammast sín hið minnsta). Þetta þýðir að ég þarf að tékka á leitarvélunum áður en spurningin er látin vaða. Og hér kemur hún:
Hver syngur háfleygan brag um svása meyju?
PS Dagurinn var önaðslegur hjá mér, vona að þið hafið líka notið hans í botn
Hallgerdur | (2) comments
föstudagur, maí 12, 2006
Sigurborg Hilmarsdóttir réði ljóðagetraunina, allt hárrétt hjá henni, ljóðið var eftir Hannes P, án titils (nr. 16 úr bókinni 36 ljóð sem kom út árið 1983 og var tileinkuð Kristjáni Eldjárn). Takk fyrir þetta Sigurborg, ég skal bjóða þér uppá kaffibolla næst þegar við sjáumst. Annars er ég á leiðinni á opnun Landnámsskálans á eftir, ég er ein af mjög útvöldum boðsgestum þar að mér skilst. En þessa heiðurs verð ég aðnjótandi vegna þess að á einum margmiðlunarskjánum sést hvar kona mjólkar kind. Þessa konu leik ég, en það er ekki gott að átta sig á því, þetta eru hálfgerðar skuggamyndir. Semsagt ef þið farið á Landnámssýninguna og sjáið þar á skjá konu mjólka kind, þá er það ég. Miklar þjáningar tók þessi vesalings kind út í stúdíóinu. Í gegn um margar kynslóðir hefur sú vitneskja sest að í hennar kyni að sé maður tekinn úr hópnum og leiddur inn í ókunnugt hús, sé það sláturhús. Kindin skeit og meig viðstöðulítið, jarmaði hátt og spyrnti við klaufum. Þegar allt var yfirstaðið hímdi hún upp við vegg og hristist eins og loftpressa. Samt reyndum við allt sem við gátum til að koma henni í skilning um að það ætti einmitt ekki að drepa hana.
Ljóðagetraunin:
Hver blístraði hvellt og hló?
Vísbending: Fyrstu setninguna í kvæðinu má tengja Landnámsskálanum
Ég hef ekki hugmynd um hver höfundurinn er, kannske getur einhver hjálpað mér með það.
Hallgerdur | (1) comments
miðvikudagur, maí 10, 2006
Jæja ég hringdi í lækninn minn í gær og sagði honum að það gengi ekki að vera með flensu í hátt á þriðja mánuð. Hann YRÐI bara að gera eitthvað. Læknirinn varð að samþykkja þetta, hingað til hefur hann ætlast til að nýja ónæmiskerfið mitt gerði út um málið. En það er ekki búið að átta sig á því hvað ónæmiskerfi gera þegar fólk fær flensu. Er sumsé komin á sterk fúkkalyf og strax farin að horfa bjartari augum á veröldina. Annars er það helst í fréttum að ég var á jarðarförum bæði í gær og fyrradag að fylgja fólki sem mikil eftirsjá er að. Það er ekki gaman. Athafnirnar voru gerólíkar en báðar mjög glæsilegar. Sú fyrri (Frans Gíslason) var prestlaus (Árni Hjartarson lék prest) en Brecht/Weil söngur og fleira þýskættað af músik, ljóð og minningarorð. Í hinni var enginnn kór en Þórarinn mágur og Kristjana svilkona komu í kórs stað, fluttu Hrísluna og lækinn eftir Pál Ólafsson og Inga T., Ætti ég Hörpu eftir Pétur Sig., Yfir í Fjörður eftir Böðvar og Kvölda tekur. Svo voru þau forsöngvarar í Um dauðans óvissan tíma og Dal einn vænan ég veit, en full Hallgrímskirkja tók undir. Þetta var sungið yfir okkar góðu vinkonu Vallý Jóhannsdóttur sem fór alltof alltof snemma. Allt kom fallega út og var hjartnæmt Síðan ætla ég að fylgja Stefáni Karlssyni handritafræðingi á föstudaginn. Semsagt þrjár jarðarfarir á einni viku. Það er ALGJÖRT met í lífi mínu.
Hér sýnist mér vera tilefni til ljóðagetraunar:
Hverjir eru himnarnir honum yfir?
Hallgerdur | (1) comments